Íþróttir

Lukkugripir

94H

Mjög algengt er á meðal íþróttafólks að hafa eins konar lukkugrip á sér til að færa þeim aukna velgengni í keppnum eða öðru slíku. Hvaða form lukkugripurinn hefur er einstaklingsbundið og þarf hver og einn að finna sinn grip.

Dæmi um lukkugripi eru hálsmen, sömu slitnu sokkarnir, ákveðið númer á keppnistreyju, að vera í stitthvorum skónum o.s.frv.

Oft er gripurinn tilviljanakenndur, t.d. ef íþróttamaðurinn hefur verið með ennisband í keppni sem gekk framar vonum. Gæti hann eða hún tengt velgengnina við ennisbandið og verið með það í næstu keppni. Ef sú keppni myndi einnig ganga vel væri komin staðfesting á gæfu gripsins og um leið orðin til hjátrúarhefð. Íþróttamaðurinn myndi eftir það alltaf vera með ennisbandið í keppnum. Hins vegar ef lukkugripurinn hættir að virka er honum um leið hent og nýr fundinn í stað þess gamla.

Þar sem ómögulegt er að spá um framtíðina er stöðug óvissa sem ríkir hjá íþróttafólki hvernig næsti leikur eða keppni muni fara. Til að takast á við óvissuna og ná ákveðinni gervistjórn búum við til ýmiss konar hefðir sem við trúum að hjálpi frammistöðu okkar í viðkomandi keppni.

Slíkar hefðir veita ákveðið öryggi sem geta skilað betri árangri í keppni. Rannsóknir hafa sýnt, að trúi menn á slíkar hefðir getur það haft jákvæð áhrif á sjálfstraust viðkomandi og þar af leiðandi leitt til betri frammistöðu í keppni. Eins ef vitlaust er farið með slíkar hefðir eða lukkugripur gleymist heima getur það haft neikvæð áhrif á sjálfstraust viðkomandi sem skilar oft verri frammistöðu í keppni.

Ljósmynd eftir Ryan McGuire

You Might Also Like