Hjátrú

photo-1427805371062-cacdd21273f1

Það virðist sem svo að ekki er til hin eina og sanna skilgreining fyrir hjátrú enda hjátrúin flókið fyrirbæri og á sér margar rætur sem liggja til allra átta.

Það sem er þó gegnumgangandi í þeim skilgreiningum sem má finna er að hjátrú, og athafnir hennar, er byggð á ótta við óvissu og trú á því að ákveðin hegðun geti haft áhrif á framtíðina. Í mörgum tilfellum virðist hjátrúin einnig vera eins konar varúðarráðstöfun við hættum í daglegu lífi.

T.d. er það talið boða mikla ógæfu að ganga undir stiga. Að sama skapi mætti segja að raunveruleg áhætta sé fólgin í því að ganga undir stiga, því stiginn gæti hreinlega hrunið á viðkomandi og hann slasast eða jafnvel dáið. Sumar hjátrúarhefðir eru lærðar, líkt og með stigann, en aðrar búum við til. Eins og íþróttamaðurinn sem keppir alltaf í gömlu slitnu sokkunum sínum til að ganga betur eða leikarinn sem þvær aldrei búninginn sinn. Sumar hefðir eru trúarlegs eðlis, aðrar koma frá Forn-Grikkjum, Egyptum eða Englandi sem dæmi, og enn aðrar hefðir eru einfaldlega reynsluhjátrú. Þá hafa hefðirnar verið taldar tengdar hjátrú, en á upplýsingaöld hefur svo komið í ljós að hjátrúin var ekki hjátrú heldur svar við ákveðnum aðstæðum.

Oft getur verið erfitt að greina hvar hefðbundin hefð endar og hjátrúin byrjar en eitt er þó víst að hjátrúin er okkar leið til að takast á við óvissuna sem framtíðin ber í skauti sér.

Íslensk hjátrú skipar stóran sess í hefðum okkar landsmanna enn þann dag í dag þótt hún hafi vissulega verið sterkari hér fyrr á tímum. Sumar af gömlu hefðunum sem voru áður til eru horfnar, aðrar hafa breyst og þróast með árunum, og enn aðrar halda áfram að myndast og verða til í nýjum aðstæðum.

Við fyrstu sýn virðist þó hjátrúin ekki spila stóran þátt í lífi okkar í dag og myndu fæstir viðurkenna að þeir væru hjátrúarfullir. Hins vegar þegar nánar er að gáð leynast hinar ýmsu hversdagslegu hjátrúarhefðir í gjörðum okkar og við nánari athugun kemur í ljós að Íslendingar eru mjög hjátrúarfull þjóð.

Ljósmynd Jordan Sanchez