Flokkar Leikhús

Hjátrú í leikhúsum

70L5UYL0FO

Hjátrú í leikhúsum er nokkuð algeng í dag þó svo að íslenskt sviðslistafólk taki slíkum hefðum misalvarlega. Þó eru samt nokkur fyrirbæri sem virðast ennþá vera við lýði, hvort sem það er til að sporna gegn lélegri frammistöðu á sýningu eða hreinlega til gamans og létta á streitunni rétt fyrir frumsýningu.

Hjátrú í leikhúsum hefur lengi verið til, enda mikil eftirvænting og óvissa sem fylgir þessari starfstétt. Því er mikilvægt að undirbúa sig vel fyrir sýningu og setja sig í réttar stellingar, svipað og íþróttamenn fyrir keppni.

Sumar hefðir eru þó einfaldlega nauðsynlegar til að skila betri frammistöðu og myndu ekki flokkast sem hjátrú; t.d. þurfa leikarar og söngvarar að hita upp röddina áður en farið er á svið til að skaða ekki raddböndin. Sama má segja um dansara, sem þurfa að hita upp og undirbúa vöðvana fyrir átök svo að þeir meiðist ekki í miðri sýningu.

Slíkur undirbúningur er nauðsynlegur líkt og nauðsynlegt er að læra margföldunartöfluna áður en farið er í stærðfræðipróf. Ef það stjórnar hins vegar frammistöðu þinni hvort þú sért með lukkupennann þinn í prófinu eða annan blýant erum við komin yfir í hjátrúna.

Línan á milli upphitunar og hjátrúar getur þó oft verið óljós og jafnvel eru hjátrúarhefðirnar oft blanda af báðu.

You Might Also Like